Erasmusverkefni

Frá því haustið 2019 hefur Grunnskóli Grundarfjarðar tekið þátt í Erasmus+ verkefni. Við byrjuðum þrjú að vinna að þessu verkefni fyrir hönd skólans, Helga María, Rósa og Sigurður Gísli. Verkefnið er samstarfsverkefni fimm skóla (e. School exchange partnership). Samstarfsskólar okkar eru staðsettir í Kinvarra á Írlandi, Pamplona á Spáni, Kolltveit í Noregi og Ustka í Póllandi.  Þessir staðir eiga það sameiginlegt að þeir tengjast allir sjónum á einhvern hátt. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu og er til tveggja ára og átti að ljúka ágúst 2021.  Verkefnið heitir “Set a sail for clean seas”. 

Megin markmið verkefnisins er að vekja nemendur til vitundar um ábyrgð okkar gagnvart sjónum og umhverfinu okkar.  

Heimasíða verkefnisins er http://erasmussnipi.com/ þar er hægt að sjá upplýsingar um verkefnið og þau viðfangsefni sem unnin eru í skólunum á hverjum stað.  

Í nóvember 2019 fórum við í fyrstu ferðina og var Kinvarra á Írlandi heimsótt. Þar tókum við þátt í fjölbreyttum verkefnum t.d voru gróðursett tré, þjóðgarður skoðaður og líf í á athugað. Hluti af verkefninu er að við erum að vinna með okkar nánasta umhverfi og munu nemendur taka þátt í þannig verkefnum. Í byrjun janúar sendum við Póllandi matarpakka sem hafði að geyma íslenskar matvörur og fengum frá þeim samskonar pakka. Föstudaginn 31. janúar 2020 fengu nemendur 4. og 5. bekkjar (árg. 2009-2010) að opna pakkann um leið og nemendur í Póllandi opnuðu pakkann frá okkur.  

Næsta ferð sem var farin var til Pamplona á Spáni í byrjun mars 2020. Í þeirri ferð kynntumst við skólanum, skoðuðum lífríkið við ánna og fengum að kynnast þessari dásamlegu borg sem er ein helsta nautaats borg Spánar.  

En þegar við komum heim úr þeirri ferð var nánast öllu skellt í lás á Íslandi vegna covid-19, þannig að úr varð að verkefnið var sett í pásu.  Við áttum að fá heimsókn síðan frá hópnum í byrjun maí 2020 sem varð ekki.  

Skólaárið 2020-2021 leið með allskonar takmörkunum vegna covid- 19, en við héldum áfram innan skólans að ræða og vinna úr þeim hugmyndum sem við kynntumst í ferðum okkar til Írlands og Spánar. Einnig vorum við í netsambandi við skólana úti, en þar voru skólarnir töluvert meira lokaðir en hér hjá okkur.  

Í september 2021 var síðan ákveðið að nú væri tækifæri á að byrja aftur á verkefninu. Helga María var farin í námsleyfi og kom Ingibjörg því inn í verkefnið.  

Fyrsta ferðin var síðan farin til Ustka í Póllandi í nóvember. Þar fengum við að vera þátttakandi í hinum ýmsu kennslustundum, skoðuðum vita sem er stór partur af sérkenni þessa svæðis og fengum að taka þátt í þegar verið var að þjálfa strandverði. Sigurður tók þátt í æfingunni og var bjargað úr lauginni.  

Þegar við vorum á leiðinni heim úr þeirri ferð var covid-19 faraldurinn kominn á skrið í Grundarfirði og lokaði skólinn í kjölfarið og síðan tóku við ýmsar takmarkanir á skólastarfi. Planið hélt samt áfram og gerðum við okkar besta með að vinna með verkefnið hér innan skólans, þar sem við áttum von á hópnum í heimsókn til okkar, og kom hann í byrjun mars 2022. Það gekk allt eins og í sögu og allir hæst ánægðir með heimsóknina hingað til okkar. Við fórum meðal annars í heimsókn til G.Run, fengum Ragnhildi hjá Svæðisgarði Snæfellsnes í heimsókn, fórum í ferð með Sæferðum og kíktum á Æðarsetrið. Síðan fengu gestir okkar að upplifa nokkrar kennslustundir hjá okkur og fengu þeir t.a.m. að kryfja fisk. Við viljum þakka þeim sem tóku á móti okkur þegar við vorum með hópinn í heimsókn.  

Síðasta ferðin var síðan farin til Kolltveit (Bergen) í Noregi í maí, fóru Rósa, Ingibjörg og Steini í þá ferð. Þar fengum við að fara í skemmtilega útikennsluferð þar sem nemendur í 3.bekk voru búnir að leggja net í vatn og var nú komið að því að draga netin á land. Nemendur þriðja bekkjar gengu að vatninu og eyddu skóladeginum þar. Þar voru netin dregið upp, fiskurinn týndur úr netunum, síðan gerðu nemendur að afrakstrinum og var hann síðan grillaður við vatnið þar sem búið var að græja smá eld. Við fengum einnig að kynnast víkingaverkefnum nemenda skólans og heimsóttum alla bekkina og fengum kynningar á mörgum flottum verkefnum.  

Á þessum tíma höfum við lært ofboðslega mikið og höfum nýtt þann lærdóm í okkar vinnu í skólanum. Við eigum síðan eftir að vinna meira með það á komandi árum.  

Hægt er að skoða afrakstur verkefnisins á heimasíðu þess og etwinning síðu.  Fleiri myndir eru inni á myndasafni.

Bestu kveðjur 

Verkefnastjóri þessa verkefnis,  

Rósa