Jólasaga

Skólabókasafnið í samstarfi við Leshópinn Köttur út í mýri stóð fyrir jólasögusamkeppni í desember. Alls voru innsendar 15 jólasögur og fengum við rithöfundinn Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur til að vera dómari í samkeppninni. Í dag, 16. desember var svo tilkynnt um sigurvegara en það voru þrjár sögur sem þóttu bestar og fengu rithöfundarnir ungu verðlaun, bækur eftir Bergrúnu Írisi og gjafabréf í Klifurfellið. 
 
Í 3. sæti var Guðrún Ósk Aðalsteinsdóttir en hún skrifaði söguna Jólakúlurnar. 
Í umsögn dómarans segir: Hugmyndin um jólakúlur sem hver og ein geymir sína sögu er dásamlega útfærð af höfundi. Myndirnar segja heilmikla sögu, eru lifandi og fullar af húmor. Hver kafli er saga og ljóst að höfundur er með gríðarmikið ímyndunarafl. Gaman væri að sjá hverja sögu skrifaða út í enn lengra máli og teikningarnar útfærðar í lit á ólínustrikuð blöð. Vonandi heldur höfundurinn Guðrún Ósk áfram að skrifa og teikna í framtíðinni.
 
Í 2. sæti var Jódís Kristín Jónsdóttir en hún skrifaði söguna Vinirnir á jólunum.
Í umsögn dómarans segir:  Sagan er fallega skrifuð og hefst á því að lesandi fær tilfinningu fyrir umhverfinu þegar höfundur lýsir kuldanum úti og hitanum inni. Það er gaman að lesa um næturbrölt systranna þegar þær hitta jólasveininn og endirinn er klassískur og vel skrifaður.
 
Sigurvegarinn var Andri Jósefsson með söguna Stúfur bjargar jólunum.
Í umsögn dómarans segir:  Það er löngu tímabært að fá sögu um jólasveina sem veikjast af covid. Auðvitað veldur veiran vandræðum hjá jólasveinunum eins og okkur hinum. Höfundur sögunnar er snjall og lætur Stúf koma til bjargar og afhenda gjafirnar, en auðvitað ekki hjálparlaust heldur fær Stúfur til liðs við sig stúlkuna Lóu og Jólaköttinn til að afhenda gjafirnar. Eins og í öllum góðum spennusögum er verkefnið ekki auðvelt en tekst þó að lokum. 
 
Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju og það verður gaman að fylgjst með þeim í framtíðinni.