Miðstig Grunnskóla Grundarfjarðar, nemendur og starfsfólk, bauð í glæsilegan viðburð í vikunni. Jólaskógurinn er fjölþætt verkefni og vel undirbúið. Hér í skógræktinni okkar, vestast í bænum, var búið að búa til jólalegan ævintýraheim, þar sem gestir fengu að ganga í hópum á milli stoppustöðva, en á hverri stöð var lítill leikþáttur í boði. Fyrst tóku á móti okkur Grýla sjálf og Leppalúði, en síðan allskonar jólasveinar, álfar, Grýlubörn og fleiri verur. Á lokastöðinni var boðið uppá kakó og smákökur, sem þau höfðu sjálf bakað.
Fyrir viðburðinn höfðu þau skipt sér í hópa, sem sáu um skreytingar, bakstur, markaðssetningu og auglýsingar á viðburðinum, tónlist og leikþætti, o.fl. Allt er þetta hluti af námi og skólastarfi, sem snertir á mörgum námsgreinum.
Jólaskógurinn var settur upp í fyrra og endurtekinn í ár. Það kyngdi niður jólasnjó á hárréttum tíma, í logninu, til að gera stemninguna ennþá jólalegri. Krakkarnir voru frábær - og þau hafa notið aðstoðar kennara og annars starfsfólks við undirbúninginn. Metnaðurinn skein allsstaðar í gegn, hvort sem það var við hugvitssamlegar og fyndnar skreytingar og leikmuni, fallega og skemmtilega leikþætti, frábæra búninga og förðun, vel skipulagða "auglýsingaherferð" eða annan faglegan undirbúning.
Endilega skoðið myndir frá viðburðinum inni á myndasíðu.