Í þessari viku hafa verið þemadagar í skólanum. Þemað að þessu sinni var átthagi Grundarfjarðar. Nemendur á yngsta stigi fóru í vettvangsheimsókn í G.Run og á bryggjusvæðið og unnu svo fjölbreytt verkefni með yfirheitinu, Fegurðin – Fiskar, fjöll, fuglar og fley. Þau útbjuggu fjallgarðinn sem umlykur Grundarfjörð og merktu inn öll örnefni. Þá útbjuggu þau fiska sem er landað hér í Grundarfirði, fugla sem lifa á svæðinu, stóru skipin sem eiga heimahöfn hér og þá sveitabæi sem eru með húsdýr. Þetta var svo allt sett saman í eitt stórt listaverk. Miðstig fékk kynningar frá fjölmörgum félagsamtökum og unnu þau verkefni því tengdu. Einnig unnu þau verkefni um hvað væri til fyrirmyndar í samfélaginu okkar og hvað mætti betur fara. Nemendur útbjuggu líkön af því sem þau vildu sjá í bænum okkar. Nemendur völdu sér fyrirmynd sem þeir sögðu frá á skemmtilegan hátt á opnu húsi. Þá fóru þau í starfskynningar á Kaffi 59, G.Run, Bjargarstein og til Listons og lærðu ýmislegt nytsamlegt þar. Unglingarnir fengu starfskynningar á hinum ýmsu störfum. Þeir fóru í vettvangsheimsóknir á vinnustaði sem tengjast sjávarútvegi í Grundarfirði. Nemendur völdu sér eitthvað svið atvinnulífsins til að gera verkefni með framsetningu að eigin vali og voru verkefnin til sýnis á opnu húsi. Fimmtudaginn 21. mars var svo opið hús þar sem bæjarbúar gátu litið inn og séð afrakstur vikunnar.
Bestu þakkir til allra þeirra sem tóku á móti nemendum og komu í skólann og kynntu starf sín.
Fleiri myndir eru inni á myndasíðu merkt "Þemadagar 2024"